Málsmeðferð og eftirfylgni

Hver sá sem ber fram fyrirspurn eða tilkynnir um brot, skriflega eða munnlega, á rétt á að fá aðstoð hjá fagráðinu. Fagráðið aðstoðar tilkynnanda við að meta aðstæður og ákveða frekari aðgerðir. Fagráðið skal gæta trúnaðar um mál á þessu stigi.

Þegar fagráðið, í samráði við tilkynnanda, ákveður að taka mál til meðferðar skal ráðið kanna málið til hlítar meðal annars með því að ræða við eða óska eftir umsögn tilkynnanda og þess sem tilkynning beinist að, og eftir atvikum yfirmanna og samstarfsfólks þeirra. Þegar könnun máls er lokið kynnir fagráðið niðurstöður sínar með umsögn til tilkynnanda, lögreglustjóra hlutaðeigandi embættis og annarra hlutaðeigandi aðila. Telji fagráðið ástæður til getur ráðið gert tillögur að viðbrögðum til úrbóta til lögreglustjóra viðkomandi embættis.

Mál er sent til fyrirsagnar veitingavaldshafa ef alvarleiki þess er það verulegur að til álita kemur að veita hlutaðeigandi starfsmanni lausn frá embætti.

Ef grunur leikur á refsiverðri háttsemi starfsmanns lögreglu þá sendir fagráðið eða lögreglustjóri Héraðssaksóknara málið til meðferðar skv. reglum 1.mgr. 35. gr. b lögreglulaga nr. 90/1996, sbr. 1. gr. c. laga nr. 62/2016. Ef grunur leikur á refsiverðri háttsemi starfsmanns Héraðssaksóknara þá sendir fagráðið eða lögreglustjóri Ríkissaksóknara málið til meðferðar skv. reglum 2. mgr. 35. gr. b. lögreglulaga nr. 90/1996, sbr. 1. gr. c. laga nr. 62/2016.

Þegar tilkynnt mál er verulegum vandkvæðum bundið eða ljóst að frekari athuganir muni ekki bera árangur skal fagráðið hætta frekari meðferð þess. Fagráðið kynnir niðurstöður með umsögn til viðkomandi lögreglustjóra.

Fagráð fylgir eftir málum með bréfi til viðkomandi lögreglustjóra þremur mánuðum eftir að ráðið hefur kynnt niðurstöður sínar. Lögreglustjóri skal upplýsa ráðið um þau úrræði sem embættið greip til á grundvelli umsagnar fagráðsins og leggja mat á árangur þeirrar vinnu.